Rúnar Gauti Gunnarsson
Sigurður Kristjánsson stigameistari í snóker 2023
Sigurður Kristjánsson varð um síðustu helgi stigameistari tímabilsins í snóker með fullu húsi stiga eftir að hafa unnið síðasta mótið á mótaröð þeirra bestu í íþróttinni hér á landi.
Útsláttarkeppnin fór fram á Snooker og pool-stofunni en vinna þurfti þrjá ramma til að sigra í hverjum leik fyrir sig.
Sigurður mætti Þorsteini Hallgrímssyni, fyrrverandi Íslandsmeistara í golfi, í átta manna úrslitum og vann öruggan sigur sem innihélt þrjú stuð yfir 60 stig.
Í undanúrslitum vann Sigurður síðan Ásgeir Jón Guðbjartsson, 3:1. Í úrslitunum mætti hann Sigurði Unnari Bragasyni. Leikurinn var jafn lengi vel en Sigurður innsiglaði góðan sigur, 3:1, með glæsilegu stuði upp á 81 í úrslitaramma.
Sigurður fékk því fullt hús stiga með því að vinna fimm mót af sex en fimm mótanna gilda. Baráttan um Íslandsmeistaratitilinn ræðst í maí og þá kemur í ljós hvort Sigurður fylgir þessu eftir og vinnur hann líka.
